Wednesday, July 23, 2008

Ferð til Jemen og Jórdaníu í maí – júní 2008.

Minnispunktar Ingvars Teitssonar

28. maí 2008:
Ég flaug til Reykjavíkur að kvöldi. Flugvélin lenti í Reykjavík um kl. 21.15. Ég gekk á Eggertsgötuna til Þóru dóttur minnar og tók hjá henni farseðlana og upplýsingar um Jemen og Jórdaníu sem Haukur Eggertsson hafði sótt fyrir mig á fund í Reykjavík með Jóhönnu Kristjónsdóttur (JK) viku áður. Svo gisti ég á Flókagötu 1 eins og venjulega.

29. maí 2008:
Ég vaknaði kl. 03.45 og tók flugrútuna frá BSÍ kl. 04.30 til Keflavíkurflugvallar. Þangað kom ég á tilsettum tíma kl. 05.15 og hitti JK og hina úr hópnum. Þetta voru alls 18 Íslendingar, að JK meðtalinni, sem var fararstjórinn. Við innrituðum okkur í flug Flugleiða til Frankfurt og fórum í loftið um 07.30. Þarna hitti ég m.a. Hrafn Túliníus sem kenndi mér í Læknadeild HÍ og Sigurð Þorvaldsson, lýtalækni, ásamt konum þeirra.

Eftir verulega ókyrrð í lofti við strönd Hollands/Belgíu, lentum við í Frankfurt. Mér kom á óvart hve flughöfnin þar er risastór. Flughöfnin virðist vera í einni samfellu og virkar mun stærri en t.d. aðalflugstöðin (Terminals 1, 2 og 3) á Heathrow. Sem betur fer fengum við þýskan leiðsögumann sem JK hafði pantað til að fylgja okkur þangað sem brottfararsalur Royal Jordanian Airlines var. Þetta var a.m.k. 20 mínútna ferð, að hluta til með lest í flughafnarbyggingunni.

Eftir 1-2ja klst. bið fórum við í loftið með flugvél Royal Jordanian til Amman. Skýjað var framan af en við sáum niður á strönd, líklega í Grikklandi, þar sem brött fjöll risu úr sæ. Í myrkri um kvöldið flugum við inn yfir strönds sem líklega var Ísrael. Þar var stór borg við ströndina, stutt norðan við flugleiðina, væntanlega Haifa. Skömmu seinna lentum við á Queen Alia alþjóðaflugvellinum, skammt suðvestan við Amman. Þegar við komum inn í flugstöðina í Amman, var strax ljóst að nú vorum við komin í nýjan heimshluta. Hér var töluvert af Aröbum í hvítum kuflum með svarta höfuðsnúru. Þeir hafa væntanlega verið frá Saudi-Arabíu eða Persaflóaríkjunum. Flugstöðin á Queen Alia er ekki mjög stór en þó stærri en í Keflavík. Þar er m.a. fríhöfn og þarna var m.a. hægt að fá alls konar áfengi og tóbak. Ég þorði þó ekki að taka neitt áfengi með mér til Jemen, vissi ekki hvort þras kynni að vera gert út af slíku við komuna til Jemen. Þarna í fríhöfninni fletti ég í fyrsta sinn alvöru arabískri bók, sem auðvitað er lesin „aftan frá“!

Flugferðin frá Frankfurt til Amman tók rúmar 4 klst. Flugið okkar frá Amman til Sana’a í Jemen átti að fara í loftið kl. 23.40 en fór loksins upp úr miðnætti að staðartíma. Við flugum fyrst til suðausturs inn í eyðimörkina og svo suður að strönd Rauðahafsins og suðaustur með endilöngum Arabíuskaganum. Á leiðinni var stöðugt í gangi kort á skjá fyrir farþegana. Þar sást bæði hvernig okkur miðaði og einnig var sýnt með nokkurra mínútna millibili í hvaða átt Mekka var ef menn þyrftu að biðjast fyrir.

Á leiðinni frá Frankfurt til Amman sat ég við hlið manns frá Palestínu sem var að snúa heim frá Kanada. Hann sagði mér m.a. frá erfiðleikunum við að komast frá Vesturbakkanum út í heim og til baka. Á leiðinni frá Amman til Sana’a sat ég við hlið manns frá Jórdaníu sem var að fara til Jemen til að vinna í olíuiðnaðinum. Í flugstöðinni í Amman heyrðum við að mikill jarðskjálfti hefði orðið undir Ingólfsfjalli og að miklar skemmdir hefðu orðið á húsum í Hveragerði, á Selfossi og víðar á Suðurlandi. Kom þessi fregn illa við marga í hópnum þar sem nokkur okkar voru einmitt búsett á Selfossi og í Hveragerði. Sem betur fór varð þó ekki manntjón í þessum jarðskjálfta.

Við lentum á alþjóðaflugvellinum norðan við Sana’a á 4. tímanum að morgni 30. maí. Flugstöðin þar er ekki stór. Aðstæðurnar þarna eru „einfaldar“. Við gengum út á malbikið úr flugvélinni og vorum flutt með rútu upp að flugstöðvarbyggingunni. Þarna var þægilega hlýtt. Inni í flugstöðvarbyggingunni voru vegabréfin okkar og visa-umsóknir tekin – og urðu þarna eftir. Ekkert var leitað í ferðatöskunum! Við fórum mjög fljótlega upp í rútu og var ekið rakleitt með okkur inn í Sana’a. Á leiðinni fórum við í gegnum tvær varðstöðvar. Við ókum beint á Sheraton hótelið sem er í útjaðri borgarinnar að austan, uppi í rótum fjallsins Jabal Nuqum.

30. maí 2008:
Ég fór í háttinn á Sheraton hótelinu upp úr 04.30 og svaf til klukkan að verða 10. Þá fór ég í morgunverð og eftir það út fyrir hótelið að litast um. Tvöföld varnargirðing (tvær stórar slár sem voru á hjörum í annan endann) var við innkeyrsluna að hótelinu. Voru vopnaðir verðir við báðar slárnar. Á götunni utan við hótelið voru vopnaðir verðir á etv. 200 m fresti. Þótti mér það ekki uppörvandi.

Ég reyndi að taka áttir, miðað við sólstöðuna, þarna um kl. 11 fyrir hádegi. Það var þó ekki hægt, því að sólin var beint uppi yfir höfði mér, enda er Sana’a á 15° N og einungis rúmar 3 vikur í sumarsólstöður.

Lítið var um að vera á Sheraton hótelinu og nær engir Vesturlandabúar þar nema einn hópur af Ungverjum þegar við komum. Er þó Sheraton hótelið eitt af þremur dýrustu hótelunum í Sana’a og því er augljóslega ætlað að höfða til vestrænna ferðamanna. Dálítið var af arabískum gestum á hótelinu. Starfsfólk hótelsins var að töluverðu leyti frá Suður- og Suðaustur-Asíu. Þó var þarna dálítið af Jemenum, einkum við útidyrnar og við vopnaleitarhliðið við útidyrnar. Ég heilsaði Aröbunum alltaf á arabísku – og þeir kunnu augljóslega vel að meta það.

Upp úr hádeginu fórum við niður í gömlu borgina í Sana’a. Allt fram að byltingunni 1962 var Sana’a lítið meira en gamla borgin sem er ca. 1,2 x 1,2 km2 að stærð. Múrarnir umhverfis gömlu borg standa enn að miklu leyti. Um 1962 voru íbúar Sana’a um 90.000 en nú 2-3 milljónir. Íbúar alls Jemen eru nú um 22 milljónir.

Þar sem langtímaverðurspáin á BBC þ. 28. maí hafði gert ráð fyrir rigningu þ. 30. maí í Sana’a tók ég með mér regnhlíf í bakpokanum. JK hafði reyndar fullvissað mig um að alls ekki mundi rigna í Jemen í þessari ferð. Ekki höfðum við verið nema skamma stund á göngu í gömlu borg þegar fór að rigna. Þrumur og eldingar fylgdu. Við fórum inn á lítið veitingahús undir tjaldi – og þá virkilega fór að hellirigna! Ég tók m.a. myndir af úrfellinu fyrir utan tjaldið.

Við fórum á endanum út í rigninguna – og kom þá regnhlífin mín í góðar þarfir. Þá voru göturnar í gömlu borg orðnar að beljandi lækjum og varð ég að fara úr nýju hvítu strigaskónum mínum og sokkunum og vaða! Bót var í máli að steinarnir í götunum voru sléttir og vatnið mun hlýrra en í íslenskum jökulám!

Á leiðinni í gegnum gömlu borg fórum við inn í apótek þar. Hrafn Túliníus og Helga Brynjólfsdóttir kona hans höfðu ekki fengið töskuna sína úr fluginu frá Amman til Sana’a. Öll lyfin hennar Helgu voru í töskunni. JK hafði þó sagt okkur að setja öll persónuleg lyf í handfarangur. Í apótekinu tókst mér, með smáaðstoð frá Muhammed, jemenska leiðsögumanninum okkar, að fá t. prednisólon 5 mg og t. amlodipine 5 mg sem Helgu vantaði. Þar kom sér vel, sem oftar, að ég kunni fáein orð í arabísku, því að afgreiðslumaðurinn kunni ekkert nema arabisku. Einnig fengum við salbutamol úðastauk handa einni konu í hópnum. Við örkuðum svo í rigningunni í gegnum markaðinn, Suq al-Milh, og út í gegnum suðurhliðið á gömlu borg, Bab al-Yemen. Á markaðnum og við hliðið var mikið af innfæddum sem reyndu að selja okkur hitt og þetta. Það vakti athygli mína að nær engir Vesturlandabúar voru þarna sjáanlegir.

Er við ókum upp á Sheraton hótelið aftur síðdegis, vakti það athygli mína að árfarvegurinn vestan undir gömlu borg, Wadi as-Saila, var orðinn að stóreflis á. Þegar við komum niður í gömlu borg upp úr hádeginu, var árfarvegurinn þurr gata sem við ókum eftir, en nú var þarna fullkomlega ófært fyrir nokkurt farartæki. Við borðuðum kvöldverð á Sheraton. Þar var vatn með matnum, úr einnota plastflöskum. Við fórum í háttinn upp úr kl. 21.

31. maí 2008:
Að morgni ókum við niður í YERO miðstöðina í Sana’a. Þar styrkir JK rúmlega 100 börn til að þau fái morgunverð, skólabúninga og aðstoð við nám. Alls fá rúmlega 200 börn svona aðstoð í YERO miðstöðinni svo að JK styrkir rúmlega 50% þeirra. Einnig styrkir JK hóp af konum úr Sana’a til fullorðinsfræðslu þarna í YERO.

Í YERO hittum við Nouria Nagi, forstöðukonuna. Hún er feitlagin, fremur lágvaxin og hefur að mínu mati yfirbragð heldri konu. Hún gengur teinrétt og ber sig mjög vel. Nouria mun vera tvígift og tvískilin og barnlaus. Hún bjó um árabil í London og talar ágæta ensku. Ég hitti þarna drenginn Ahmed Abdulmalik Alansee sem ég styrki. Systir hans, Hanadi, kom þarna hins vegar ekki. Móðir þeirra kom þarna hins vegar og hitti mig sem snöggvast. Með henni kom yngri systir Ahmeds. Ég tók í hendinni á móður Ahmeds og Hanadi en þorði ekki annað en spyrja Nouria Nagi fyrst hvort það væri í lagi. Móðirin leyfði mér að taka mynd af sér með börnin tvö. Öll þrjú virtust nánast skinhoruð og börnin voru að mínu mati sútarleg. Móðirin var klædd í svart frá hvirfli til ilja og með blæju þannig að einungis var rifa fyrir augun. Reyndar voru flestar konur í Sana’a klæddar þannig.

Í YERO keypti ég litla innrammaða mynd sem eitt barnanna hafði teiknað. Einnig keypti ég pakka af Mokka kaffi í útsaumuðum taupoka. Þá afhenti ég Nouria USD 100,- að gjöf sem styrk til YERO.

Húsakynnin á YERO voru þokkaleg. Byggingin var hálfgert samsafn af smærri byggingum sem voru í misjöfnu ástandi. Inni var hins vegar allt mjög hreint og þrifalegt. Þarna var m.a. skólastofa með ca. 30 stólum, tölvuherbergi með fáeinum nútímalegum tölvum, saumastofa, skrifstofa o.fl. herbergi. Úti í forgarðinum var heilsugæslustöðin, allstórt málmklætt hús með anddyri, biðstofu og lækningastofu. Á lækningastofunni var m.a. skoðunarbekkur og einfaldasti heilsugæslubúnaður. Yfir útidyrahurðinni var skilti þar sem sagði að „Islamic Relief, Yemen“, hefði gefið þessa heilsugæslustöð fyrir fátæk börn og fjölskyldur þeirra í júní 2007. Mér skildist reyndar að peningurinn fyrir þessari heilsugæslustöð hefði komið frá einhverjum aðilum í Bretlandi.

Frá YERO var ekið á ferðaskrifstofu þá í Sana’a sem skipulagði ferð okkar um Jemen. Þaðan fórum við og skoðuðum safn, „House of Folklore“ þar stutt frá. Allt var þetta; YERO miðstöðin, ferðaskrifstofan og safnið, stutt suðvestan gömlu borgarinnar í Sana’a. Á safninu mátti m.a. sjá fatnað, krydd, húsmuni o.fl. Frá safninu fórum við á palestínskan veitingastað í Sana’a, suðvestan við gömlu borg. Þar borðuðum við hádegisverð. Var það fyrsta máltíðin okkar á arabískum veitingastað og mjög athyglisverð. Borðið, dúkurinn og allur veitingastaðurinn var mjög einfaldur í sniðum. Maturinn var góður.

Eftir hádegismáltíðina á palestínska veitingastaðnum fór rútan okkar með okkur upp á Bab al-Yemen. Varla vorum við stoppuð við hliðið inn í gömlu borg þegar bíll með vopnaða lögreglu kom aðvífandi. Bíllinn var merktur á ensku „tourist police“. Út komu tveir vopnaðir lögregluþjónar sem fylgdu okkur svo við hvert fótmál inn í Suq al-Milh. Muhammed leiðsögumaður sagði mér seinna að þeir hefðu komið eftir ábendingu frá ferðaskrifstofunni, til að vernda okkur. Mér fannst návist lögreglu af þessu tagi ekki þægileg. Auk þess vorum við eina vestræna fólkið á markaðnum. Ég keypti ekkert á markaðnum þennan dag. Margir sölumenn á markaðnum kölluðu til mín og ég svaraði þeim alltaf á arabísku. Það kunnu þeir að meta.

Um miðaftanskaffið fór að rigna, eins og BBC hafði reyndar spáð þ. 28. maí áður en ég fór að heiman. Þá fórum við heim á Sheraton hótelið. Við borðuðum á hótelinu um kvöldið.

1. júní 2008:
Við fórum að morgni frá Sheraton hótelinu vest-suðvestur frá Sana’a upp í Haraz fjöllin. Við ókum aðalveginn frá Sana’a til al-Hudaydah á strönd Rauðahafsins. Vegurinn er malbikaður og er víðast hvar ein akrein í hvora átt. Kínverjar munu hafa byggt þennan veg. Um 30 km vestan Sana’a fórum við yfir vatnaskil. Þar sáum við í norðri tindinn á Jabal an-Nabi Shuayb, 3.760 m, sem er hæsti tindur alls Arabíuskagans.

Vestan við vatnaskilin hallar landinu vestur að Tihama, strandlengju Jemens við Rauðahafið. Þarna í fjöllunum er landslagið mjög hrikalegt. Fjöllin eru mjög brött og sundurskorin af giljum og dölum. Vegirnir eru víða sprengdir inn í snarbrattar hlíðarnar. Við vorum á fimm Toyota Landcruiser jeppum. Jemensku ökumennirnir óku, að mér fannst, hratt og ógætilega vestur fjöllin. Okkur var gefin sú skýring um hádegið að Muhammed, leiðsögumaðurinn okkar, hefði sagt bílstjórunum að flýta sér upp í fjöllin áður en síðdegisrigningin kæmi.

Á leiðinni vestur fjöllin voru hjallar í hlíðunum mjög áberandi. Hjallarnir eru hlaðnir upp til að fá flata bletti til ræktunar. Mjóstu hjallarnir eru etv. 1 m á breidd, eftir því hver bratti hlíðarinnar er. Á hjöllunum var víða verið að vinna. Á einum stað var t.d. bóndi að plægja með einum asna. Í þessu fjalllendi er m.a. ræktað kaffi, qat og ýmis kornvara. Sums staðar eru sýnileg áveitukerfi. Það hlýtur að kosta afar mikla vinnu að halda þessum hjöllum við. Framveggir hjallanna eru nær þverhníptir og hlaðnir úr ávölum steinum sem flestir eru ekki stórir.

Þegar við vorum tæplega hálfnuð frá Sana’a til al-Hudaydah, beygðum við suður í Haraz fjöllin. Við ókum upp brattan, malbikaðan veg í ótal krókum upp í allstórt þorp uppi á fjallshrygg, Manakha. Þar fengum við svolítinn drykk inni á hóteli og héldum svo áfram eftir fjallsegg yfir í þorpið al-Hajjarah, sem er í 2.370 m hæð. Þar skoðuðum við útsýnið. Í þessu þorpi var mikið af mjög ágengum börnum sem vildu selja okkur allt mögulegt, s.s. póstkort, hálsmen o.fl. Frá al-Hajjarah var fagurt útsýni yfir landið umhverfis þar sem hjallar af öllum stærðum voru áberandi í landslaginu.

Frá al-Hajjarah ókum við til baka til Manakha (2.250 m y. sjó) og fengum ágætan hádegisverð á hóteli í þorpinu. Þar fengum við m.a. Saltah og í eftirrétt var Bint as-Sahn, eins konar kaka með hunangi ofan á. Eftir hádegisverðinn kom hópur Jemena og stigu sumir bara’ á gólfinu en aðrið spiluðu á nokkurs konar trommur, með og án lútu. Loks drógu heimamenn alla gestina frá Íslandi út á gólfið – og var þetta hin besta skemmtun. Okkur finnst bara’ vera dans, en mér skilst að Jemenar vilji ekki kalla þessa athöfn dans enda munu strangtrúaðir múslimar ekki mega dansa..

Eftir hádegið fórum við eftir mjóum fjallavegi, því nær uppi á fjallsegg, langleiðina að litlu þorpi, Hutayb. Þetta er helgistaður Isma’ili múslima sem eru shi’i og búa einkum á Indlandi. Þeir koma hingað í Hutayb í pílagrímsferðir, en fátt var að sjá af þeim í Hutayb þennan dag. Við fórum ekki inn í þorpið en horfðum yfir það úr nokkurri fjarlægð. Sláandi einkenni Hutayb er hvítt grafhýsi uppi á tindi, beint ofan við þorpið.

Eftir þetta ókum við til baka til Sana’a. Nokkrar konur úr hópnum kvörtuðu við fararstjórann um að of hratt hefði verið ekið til Manakha. Var því ekið mun hægar til baka til Sana’a. Kunni ég því ágætlega.

Kvöldverð borðuðum við á veitingahúsi sem sérhæfir sig í fiskréttum. Þar fengum við ágætan fisk, en ekki þótti mér staðurinn sérlega snyrtilegur. Á heimleiðinni af veitingahúsinu var farið inn í hljóðfæraverslun. Meðal annars var keypt ein lúta þar o.fl. Sú verslun var þá enn opin, um kl. 21. Reyndar virðast verslanir í Jemen oft vera opnar fram eftir kvöldi, jafnvel til kl. 22, en eftir það mun vera útgöngubann. JK sagði að útgöngubannið væri arfleifð frá tímum Imamsins, þ.e. frá því fyrir 1962.

2. júní 2008:
Frjáls dagur í San’a. Ég tók leigubíl frá Sheraton hótelinu niður á Tahreer torg, því að mig langaði að skoða þjóðminjasafnið. Enginn skortur var á leigubílum við hótelið og sá fyrsti sagði að ferðin ætti að kosta 2.000 jemeni rial. JK hafði sagt okkur að borga ekki meira en 500 j.r. fyrir svona ferð. Ég möglaði því – og á endanum kom annar leigubíll sem fór með mig niður á Tahreer torg fyrir 500 j.r!

Þjóðminjasafnið reyndist mjög áhugavert. Á neðstu hæð var pre-islamic deild og svo færðist maður nær nútímanum eftir því sem ofar kom í húsið. Mjög áhugavert var að sjá ljósmyndir eftir Þjóðverja, Burkhardt, sem kom í þrjár ferðir til Jemen ca. á árunum 1900 – 1909 og var loks myrtur af Jemenum í síðustu ferðinni. Þessar myndir sýna m.a. tyrkneska hernámsliðið og ýmsar svipmyndir frá Sana’a o.fl. borgum í Jemen.

Á einni af efri hæðum safnsins var jemenskur starfsmaður sem nánast tók mig að sér. Leyfði hann mér m.a. að mynda hvað sem var á safninu og auk þess leyfði hann mér að taka myndir út um glugga sem voru eiginlega á lokuðu svæði innan safnsins. Að lokum seldi hann mér bók: „Preserving the Past While Building the Future“, um uppgröft og fornminjarannsóknir í Jemen.

Þjóðminjasafnið lokaði kl. 13. Ég fór út af safninu skömmu áður og rölti niður á Bab al-Yemen og upp í Suq al-Milh. Var mjög fróðlegt að skoða markaðinn og sjá eitt og annað af því sem þarna var til sölu. Greinilegt er að á þessum markaði er fyrst og fremst verið að höfða til heimamanna, enda er lítið um ferðamenn þarna. Þarna er auðvitað hægt að fá alls konar fatnað en auk þess krydd, matvæli ýmiss konar og eitt allstórt svæði var einungis rúsínumarkaður, þar sem fá mátti óteljandi afbrigði af ýmiss konar rúsínum. Þá var víða hægt að fá jambiyya hnífa með belti. Hnífarnir voru greinilega misjafnlega vandaðir en algengt verð var um 3.000 – 4.000 jemeni rial, eða ca. 1.200 – 1.600 ísl. kr. Segja má að markaðurinn, Suq al-Milh sé löng gata norður og upp á við frá Bab al-Yemen, etv. 500 m löng. Út frá þessari götu kvíslast svo ótal afkimar sem eru hluti af markaðnum. Maður gæti ímyndað sér að verslun hafi verið með þessum hætti í London um 1850. Ég rölti norður í gegnum markaðinn og norður úr gömlu borginni og svo vestur með gömlu borg að norðan. Þá rölti ég skáhallt suðvestur á Suq al-Milh aftur. Alls staðar tók fólk mér af mikilli kurteisi. Ég heilsaði alltaf á arabísku og reyndi að tala arabísku í lengstu lög. Var auðséð að heimamenn kunnu að meta það. Ég sá nær engan vestrænan mann allan daginn, þangað til ég kom aftur upp á hótel Sheraton.

Ég ákvað að ganga upp á hótel Sheraton neðan úr miðborginni. Það reyndist erfitt. Kort þau sem ég hafði, voru mjög ónákvæm og víðast hvar sá ég engin götuheiti. Loksins, þegar ég var kominn langleiðina upp á Mövenpick hótelið og var kominn í blindgötu, gafst ég upp. Þá tók ég bíl heim á hótelið. Um kvöldið borðuðum við á hótel Sheraton. Þar var hlaðborð sem var ágætt, en þar var enga áfenga drykki að fá með matnum.

3. júní 2008:
Við fórum á fætur um kl. 04 og gengum frá töskunum okkar. Þá tékkuðum við út af Sheraton, en skildum þó verulegan hluta af farangri okkar eftir á hótelinu. Síðan ókum við norður á Sana’a flugvöll og flugum með þotu frá Yemenia Airways til al-Mukalla á strönd Indlandshafsins í Suðaustur-Jemen. Þangað var um 60 mínútna flug. Þegar við komum út úr þotunni í al-Mukalla, um kl. 08.20 að morgni, var mjög heitt, trúlega um +40°C. Þar, við flugstöðvarbygginguna, var stóreflis kókospálmi með nokkrum kókoshnetum uppi í kverkinni milli stofnsins og laufkrónunnar.

Á flugvellinum biðu fimm Toyota Landcruiser jeppar eftir okkur. Við ókum fyrst vestur fyrir flugvöllinn og alveg niður í fjöru þar sem döðlupálmar og kókospálmar uxu hér og þar. Var athyglisvert að skoða sig um á sandströndinni og dýfa hendi í volgt Indlandshafið. Sandurinn var ljós, eins og á bestu baðströnd í Evrópu. Úti við sjóndeildarhring var floti af litlum fiskibátum við veiðar.

Frá ströndinni milli al-Mukalla og flugvallarins ókum við inn í land, áleiðis til Wadi Daw’an og Wadi Hadhramawt. Við rætur fjallanna áðum við í litlu þorpi, Abd al-Gharib Pass, sem var ekki þrifalegt. Þar keyptu ýmsir sér kókoshnetu og drukku mjólkina á staðnum og borðuðu hvíta kjötið innan úr skelinni.

Áfram var haldið upp á fjöllin og var hrikalegt að sjá fram af þeim, í átt suður til al-Mukalla. Uppi á fjöllunum voru nokkur kameldýr við veginn. Muhammed leiðsögumaður sagði mér að þau væru ekki villt og að þau skiluðu sér af sjálfsdáðum heim til eiganda síns af og til.

Í litlu þorpi, Huwayrah, stoppuðum við og borðuðum ágætan hádegisverð um 11-leytið. Var þetta þeim mun betra sem við höfðum einungis fengið lítils háttar morgunverð á hótel Sheraton við brottförina um morguninn. Þarna utan við veitingastaðinn lágu m.a. áhöld til olíuborunar. Mér skildist að í Hadhramawt væri töluverð olíuvinnsla í gangi. Við sáum þó ekki neinar olíuborunarstöðvar. Í Huwayrah voru vegamót. Aðalvegurinn milli al-Mukalla og Wadi Hadhramawt liggur hér norður um en frá Huwayrah liggur vegur vestur hásléttuna til Wadi Daw’an. Við ókum þennan veg eftir hádegismatinn. Lengi vel var farið yfir mjög hrjóstruga hásléttu en skyndilega beygðu jepparnir út af veginum til suðurs og stoppuðu eftir stuttan spöl við við hálfbyggt hótel sem stendur fremst á gljúfurbarmi. Þetta gljúfur dýpkar svo og víkkar til vesturs og norðurs og verður fljótlega að Wadi Daw’an. Jemenskur auðmaður, sheikh Abdullah Ahmed Bugshan, sem mun búa í Saudi-Arabíu, hefur látið byggja þetta hótel sem þó er ekki alveg frágengið enn. Þessi Jemeni hefur einnig látið byggja malbikaða vegi um þetta svæði og Wadi Daw’an og byggja hótel o.fl. í dalnum. Af fjallsbrúninni við hálf-kláraða hótelið mátti sjá lítil þorp djúpt niðri í gljúfrinu, etv. 500 – 1000 m neðar.

Þessu næst héldum við áfram vestur hásléttuna og ókum síðan niður nær þverhnípta hlíð niður í Wadi Daw’an. Þar, rétt hjá niðurkeyrslunni, var afar skrautlitað hótel, Khailah Palace Tourist Hotel. Við fórum ekki alveg að hótelinu, en litirnir á því voru svo fjölbreyttir að helst minnti á málningarauglýsingu frá Hörpu-Sjöfn. Þessu næst ókum við niður dalinn Wadi Daw’an. Dalurinn er stórkostlega fallegur. Hann er eins og skorinn niður í hásléttuna og háir, ljósbrúnir hamrar eru nær alls staðar í brúnunum. Minnir landslagið helst á myndir frá Grand Canyon í Colorado. Þarna var mjög heitt og döðlupálmar uxu hvarvetna. Var fróðlegt að sjá þarna stóra klasa af döðlum á ýmsum stigum: klasarnir voru grænir, gulir eða dökk-rauðbrúnir, eftir þroskastigi. Í dalbotninum er flatlent og þarna mátti sjá allstór akurlendi og áveitukerfi. Á stöku stað voru bændur með Massey Ferguson dráttarvélar sem mér þótti ólíkt verklegra en asnarnir í Haraz fjöllunum.

Við stoppuðum á nokkrum stöðum á leiðinni niður Wadi Daw’an dalinn. Á einum stað keyptu nokkur okkar sér hunang sem þykir sérlega gott á þessum slóðum. Jafnframt er hunangið mjög dýrt. Sérkennilegt er að hunangið er selt í lausri vigt. Því er hellt í krukkur úr stórum plastbrúsum, eftir því hvaða gæðaflokk og hve mikið magn viðskiptavinurinn vill fá. Þetta þætti ekki þróaður verslunarmáti í Vestur-Evrópu.

Á einum stað í Wadi Daw’an benti Muhammad leiðsögumaður okkur á reykelsistré (frankincence tree) sem óx þarna rétt við veginn. Tré þetta var á að giska 3 m á hæð og mjög greinótt, nær lauflaust og heldur kræklulegt.

Einhvers staðar í Wadi Daw’an er æskuheimili föður Osama bin Landen. Faðirinn mun hafa flust þaðan til Saudi-Arabíu fyrir seinni heimsstyrjöldina. Við spurðum Muhammad leiðsögumann og bílstjórann eftir því hvar ættarþorp bin Landen fjölskyldunnar væri en þeir gáfu lítið út á það. Mér fannst eins og þeir vildu sem minnst um þetta tala. Það er hins vegar etv. til marks um spennuna á þessu svæði að vopnaðir lögreglumenn fylgdu okkur frá al-Mukalla og hálfa leiðina niður í gegnum Wadi Daw’an. Á þessum slóðum voru tvær belgískar konur og tveir jemenskir leiðsögumenn þeirra myrt í ársbyrjun 2008, að talið var af liðsmönnum al-Qaeda.

Um kvöldið ókum við austur dalinn Wadi Hadhramawt en segja má að Wadi Daw’an sé hliðardalur út úr Wadi Hadhramawt til suðurs. Á leiðinni austur Wadi Hadhramawt ókum við fram hjá borginni Shibam eða „Manhattan eyðimerkurinnar.“ Stuttu austar, vestan borgarinnar Sayun, beygðum við til suðurs út af veginum til Sayun og vorum þá komin á al-Hawta Palace hótelið. Hótelið er á mjög friðsælum stað og vorum við einu gestirnir þar. Stór garður er við hótelið. Þar er ágæt útisundlaug og aðstaða til að sitja úti undir sólskyggni við laugina. Mikið af döðlupálmum og öðrum trjám er í garðinum. Margt fugla var líka í garðinum. Meðal annars höfðu vefarafuglar gert sér hreiður hér og þar í trjám garðsins. Einnig voru körtur, þ.e. litlir froskar, út um allt á gangstéttunum. Áveitukerfi með rennandi lækjum var um meirihluta garðsins. Mátti segja að þetta svæði væri: „gardens, graced with flowing streams“, svo notað sé orðalag Kóransins um „betri staðinn.“ Við borðuðum kvöldverð á hótelinu og áttum þar ágæta nótt.

4. júní 2008:
Við tókum lífinu með ró fram yfir hádegi. JK hafði sagt okkur að taka sem minnstan farangur með okkur í þessa ferð, svo að ég skildi sundskýluna auðvitað eftir í Sana’a! Ég sat alllengi úti við sundlaug, hlustaði dálítið á „Teach Yourself Arabic“ á i-podinum mínum og masaði við samferðafólkið. Þennan dag voru engir gestir á al-Howta Palace hótelinu nema við Íslendingarnir. Ég tók allmikið af myndum í garði hótelsins. Þarna var sól og mjög heitt og nærri logn.

Síðdegis ókum við austur Wadi Hadhramawt til Sayun. Þar átti að skoða höll – sem reyndist þó vera lokuð. Við fengum okkur te á úti-veitingastað. Þar spjallaði ég, eftir bestu getu, við tvo geðuga unga menn frá al-Mukalla. Annar þeirra sagði mér m.a. að í al-Mukalla byggi um ein milljón manns. Eftir tedrykkjuna ókum við til Shibam, um 19 km vestan Sayun. Gamla borgin í Shibam, sem er einungis hluti af Shibam nútímans, er ca. 350 x 250 m2, rétt norðan við veginn austur Wadi Hadhramawt. Bradt leiðsögubókin segir að í gömlu Shibam séu 500 hús, 500 ára gömul og að þarna búi 5.000 manns. Þetta er reyndar ekki nákvæmt.

Við gengum í gegnum gömlu borgina í Shibam, með leiðsögumanninum okkar, Muhammed. Við sáum m.a. al-Jama’a moskuna, sem var byggð 762 e. Krist og síðan endurbyggð að nokkru fyrir tilstuðlan hins volduga kalífa í Bagdad, Harun ar-Rashid sem ríkti í Bagdad um 800 e. Krist. Ég gat frætt Muhammed, leiðsögumanninn okkar á því að móðir Harun ar-Rashid hefði verið ambátt frá Jemen. Það vissi Muhammed ekki og þótti þetta athyglisvert, sagði að etv. hefði kalífinn haft áhuga á Jemen þess vegna.

Á götunum í Shibam var margt fólk og einnig margt um búfénað, sauðfé og/eða geitur. Inni í gömlu Shibam sést hvergi strá – og mér var ráðgáta af hverju skepnurnar væru ekki teknar út fyrir gömlu borg, a.m.k. að deginum. Göturnar í Shibam eru flestar mjög þröngar. Þó var furðu mikið af bílum og mótorhjólum þarna – sem ruddust áfram með miklum flautugangi.

Þessi gömlu háreistu hús í Shibam eru úr leirsteini. Heimamenn steypa flögur úr brúna leirnum sem veðrast úr fjöllunum niður á láglendið í Wadi Hadhramawt. Hálmi er blandað í leirinn til að leir-steinarnir tolli betur saman. Þetta, að blanda hálmi í leir til að steypa múrsteina er ævaforn aðferð og er m.a. nefnd í Gamla Testamentinu í sambandi við dvöl Ísraelsmanna í Egyptalandi. Í Shibam er kalkað utan og innan á veggina, oftast með hvítri húð.

Við fórum inn í eitt húsanna í Shibam, við norðvestur-horn gömlu borgar. Húsið heitir al-Bayt at-Tagleedi og er opið almenningi. Þar gengum við upp á efstu hæð og fengum te á gólfinu í mafrajjs-herberginu. Þar var að sjálfsögðu fólk að selja vörur; sjöl o.fl.

Eftir heimsóknina inn í gömlu Shibam ókum við vestur fyrir borgina til að taka myndir, en þá var sólin komin ögn niður á vesturhimininn. Var þetta um kl. 16.30 að staðartíma. Við fórum þó ekki upp að virkinu í hlíðinni sunnan megin í dalnum til að fá yfirsýn yfir Shibam. Að heimsókninni til Shibam lokinni ókum við aftur austur á Howta Palace hótelið. Við borðuðum kvöldmat á hótelinu og fengum þá m.a. ágætt úlfalda-kjöt í kvöldmatinn. Sem fyrr drukkum við vatn með kvöldmatnum. Eftir það fóru menn í háttinn – um kl. 22. Ég sagði í hálfkæringi við JK að þetta minnti mig á gamla tíma á heimavist í gagnfræðaskóla – að drekka vatn með kvöldmatnum og vera svo sendur í háttinn kl. 22. Hún tók því vel.

5. júní 2008:
Að morgni 5. júní kvöddum við al-Hawta Palace hótelið. Við ókum austur á bóginn til Sayun. Rétt hjá Seyun stoppuðum við til að skoða leirsteinagerð. Þar sáum við hóp manna vinna skipulega við gerð leirsteina. Þeir blanda saman hálmi og leir og láta síðan þessa vatnsblöndu þorna í sérstökum mótum. Svo má hlaða heilu húsin úr þessum steinum.

Eftir að hafa skoðað leirsteinagerðina, ókum við áfram austur Wadi Hadhramawt, ca. 28 km austur fyrir Sayun, til borgarinnar Tarim. Í Tarim er fornt lærdómssetur múslima í Jemen og víðar að úr Arabaheiminum. Sagt er að í Tarim sé ein moska fyrir hvern dag ársins eða um 360. Þarna í Tarim var nær logn og heiðríkja. Um hádegið var nær óbærilega heitt úti í sólinni í borginni.

Ætlunin var að heimsækja al-Ahkaf bókasafnið – en það reyndist þá vera lokað! Safnið mun vera lokað á fimmtudögum og föstudögum en það vissi Muhammed leiðsögumaðurinn okkar ekki. Reyndar er þetta nefnt í Bradt ferðahandbókinni um Jemen.

Við fórum inn í gamla höll í Tarim og þar var m.a. verið að selja reykelsi (Frankincence). Við fundum reykinn af þessu efni – og þá er þetta sama efnið og við vorum með á Nýja-Garði upp úr 1972 sem reykelsi þar!

Frá Tarim ókum við vestur undir flugvöllinn í Sayun og fengum okkur hádegisverð á veitingahúsi rétt austan flugvallarins. Athyglisvert var að sjá að rétt vestan Tarim var verið að byggja mikla brú yfir árfarveginn austur Wadi Hadhramawt. Farvegurinn var þó alveg vatnslaus þarna. Einnig var athyglisvert að heyra mjög mikinn klið frá öllum mínarettunum í Tarim þegar kallið til bæna kl. 12 á hádegi byrjaði.

Við biðum í nokkrar klst. í flugvallarbyggingunni í Sayun. Byggingin er ekki stór, etv. svipuð flugstöðinni á Akureyrarflugvelli. Helsti munurinn var sá að þarna var loftkæling – en upphitun á Akureyrarflugvelli. Þarna, um kl. 2 – 3 e. hádegi, var óskaplega heitt utan dyra en þægilega svalt í loftkælingunni innan dyra. Þegar við gengum út í þotu Yemenia Airways, um kl. 3, var austan strekkingur og hitinn +44°C. Var þá mjög óþægilega heitt í sólinni en snöggtum skárra þar sem forsælu naut.

Ég sat við hlið Frakka nokkurs á leiðinni til Sana’a. Hann talaði mjög sæmilega ensku en var ekki ræðinn. Hann var að vinna í olíuiðnaðinum. Mér skildist á honum að eftirtekjan úr olíulindunum í Jemen væri rýr. Að minnsta kosti sagði hann að þegar hann var að vinna við olíulindir vestur af Angóla í Afríku, hafi eftirtekjan verið miklu meiri. Þær lindir voru hins vegar undir 1.000 metra djúpum sjó, að mér skildist.

Eftir nokkra ókyrrð í lofti, lentum við í Sana’a. Flugið frá Sayun með þotu Yemenia Airways tók um 45 mínútur. Athyglisvert þótti mér að sjá þotur jemenska flughersins standa í röðum vestan við suðurenda flugbrautarinnar í Sana’a. Þar voru þoturnar mjög svo sýnilegar.

Við sóttum töskurnar okkar upp á Sheraton hótelið og fórum svo á annað hótel, Taj Sheba, sem er inni í miðri Sana’a, við Ali Abdul Moghri stræti, um 500 m sunnan við Tahreer torg. Þetta hótel er mun fínna en Sheraton og þarna var slangur af útlendingum, auk okkar. Hins vegar voru þarna ekki varðhlið í sama mæli og við innganginn í Sheraton. Þó var málmleitarhlið í innganginum. Herbergin á Taj Sheba voru í mjög góðu ásigkomulagi. Um kvöldið borðuðum við á veitingastað hótelsins þar sem var einkar gott og fjölbreytilegt hlaðborð. Þarna var auðvelt að fá glas af hvítvíni, rauðvíni eða bjór með matnum. Ég fékk mér hvítvínsglas – og var það fyrsta áfengið sem ég bragðaði í ferðinni.

6. júní 2008 – föstudagur:
Að morgni ókum við vest-norðvestur frá Sana’a upp í fjöllin, áleiðis til Thula. Þarna varð fljótt fremur hrjóstrugt en þó var nær alls staðar fólk að sjá og merki um landbúnað. Einnig eru ótal varðhlið við veginn til Thula, sem annars staðar í Jemen. Toyota jepparnir okkar fimm fóru þó hiklaust í gegnum varðhliðin, en þurftu að skilja eftir eina A4-örk í hverju einasta varðhliði, væntanlega með upplýsingum um hver við værum.

Upp úr hádegi komum við til Thula, dálítillar borgar sem situr nánast uppi á fjalli og utan í hlíðum þess. Skömmu áður en við komum upp til Thula, sáum við suðvestan við leið okkar þorpið Kawkaban, sem situr uppi á brúninni á þverhníptu fjalli. Fjallið sjálft virðist hins vegar vera nær flatt að ofan. Við fórum ekki upp í Kawkaban.

Thula er ca. 45 km í loftlínu vest-norðvestur frá Sana’a. Húsin í borginni eru flest úr höggnu grjóti úr fjallinu. Hér, sem annars staðar í Jemen, búa menn að sínu og byggja úr því efni sem er að hafa á hverjum stað. Strax þegar við komum inn í boggina, um kl. 12.30, hittum við Fatimu, stúlkuna sem JK segir frá í bókinni „Arabíukonur“. Urðu greinilega fagnaðarfundir með þeim JK. Fatima er nú 18 ára. Hún mun, eftir því sem JK sagði okkur, þegar hafa hafnað nokkrum biðlum. Fatima er í einhvers konar námi í Thula, og langar í tungumálanám í Sana’a, í háskólann þar. Í Sana’a er hins vegar enga heimavist að hafa fyrir stúlkur í svona námi. Rætt hefur verið um að móðir Fatimu flytji með henni til Sana’a til að Fatima geti farið þar í nám en faðir hennar yrði áfram í Thula.

Fatima bauð okkur öllum heim til sín í hádegismat. Við sátum öll, Íslendingarnir 18 og Muhammed leiðsögumaður, út með veggjum í gestastofu á ca. 3. hæð af fjórum eða fimm, í húsi Fatimu. Móður hennar sáum við rétt sem snöggvast. Er móðirin lágvaxin og þrekvaxin. Ekki þótti viðeigandi að við tækjum í hendina á móðurinni til að þakka fyrir okkur.

Hádegismaturinn hjá Fatimu var höfðinglegur. Þar á meðal var flatt brauð, bakað í ofni, ýmiss konar grænmeti og kjötmeti og gosdrykkir og vatn með. Í eftirrétt var svo ljós baka með hunangi ofan á, líklega „Bint as-Sahn“. Eftir máltíðina fórum við út að versla við Fatimu. Margir keyptu mikið af henni. Ég keypti af henni vandað silkisjal á USD 250 og möglaði ekki þegar hún nefndi verðið. Ég þurfti hins vegar að sækja þessa dollaraseðla í peningabeltið sem ég bar innan á mér – og ég gat ekki farið að hneppa niður um mig fyrir framan þessa 18 ára stúlku! Ég spurði því einn drengjanna sem voru eins og mý á mykjuskán í kringum okkur Íslendingana, hvar salernið væri. Hann fór á endanum með mig inn í hús foreldra sinna og þar gat ég lokað að mér og sótt beltið og dollaraseðlana. Þá heimtaði drengurinn hins vegar að ég keypti af sér líka. Á endanum keypti ég af honum græna glerperlufesti á USD 20 og lét hann hafa 150 jemeni rial fyrir salernið. Þegar ég komst loksins aftur til Fatimu var hún búin að bæta öðru sjali í pokann og sagði að ég fengi bæði sjölin fyrir USD 300. Borgaði ég henni það hiklaust og virtist hún hæst ánægð með viðskiptin. Ég ræddi svolítið við Fatimu eftir þetta og hvatti hana eindregið til að fara í nám, því að það væri mjög mikilvægt fyrir hana. Ég sagði henni að ég væri læknir og skildi vel hve mikilvæg menntun væri. Hún virtist hrifin af því sem ég sagði. Fatima er mjög skýrleg að sjá og heyra. Hún talar sæmilega ensku. Fatima hafði sagt JK að síðan JK kom með hóp Íslendinga til Thula í lok apríl eða byrjun maí 2008 hefðu engir ferðamenn komið til Thula. Slíkt passar vel við það sem við sáum hvarvetna í Jemen. Það voru nær engir vestrænir ferðamenn neins staðar!

Drengirnir í Thula voru afar aðgangsharðir við sölumennsku. Sáum við hvergi neitt því líkt annars staðar í Jemen – og er þá mikið sagt. Frá Thula ókum við áleiðis til Sana’a aftur. Á leiðinni fórum við niður í dalverpi, býsna þröngt og djúpt: Wadi Dhar. Niðri í dalverpinu er gróðursælt og þar munu vaxa ótal afbrigði af ávöxtum, s.s. vínþrúgur, ferskjur, epli, möndlur o.fl. Þetta er m.a. tíundað í grein í Yemen Times frá 6. apríl 2008. Það sem við ætluðum að skoða var hins vegar höllin á klettinum: „Dar al-Hajar“. Höllin mun vera afar gömul að stofni til. Niður í gegnum miðjan klettinn er geysilega djúpur, lóðréttur stokkur eða gangur, niður í vatnsból. Op eru inn í þennan stokk hér og þar. Fólk á hinum ýmsu hæðum hallarinnar gat því rennt vatnsíláti niður stokkinn og sótt sér vatn. Ef umsátursástand ríkti, þá hefur þetta vatnsból komið sér vel. Mér skildist að vatnsbólið væri að stofni til frá 3. öld fyrir Krist.

Efstu þrjár hæðirnar á klettinum mun Imam Yahya hafa látið byggja milli 1930 og 1940. Muhammed leiðsögumaður og við flest fórum upp allar hæðirnar upp á efstu hæð. Á einum stað sáum við, í gegnum læsta glerhurð, inn í einkastofu Imamsins. Einnig sáum við inn í bænaherbergi og eitt eða tvö önnur herbergi sem höfðu verið varðveitt í upprunalegri mynd, með öllum húsmunum. Var þetta mjög athyglisvert.

Við ókum svo til baka til Sana’a og fórum um kvöldið út að borða á líbanskan veitingastað í Sana’a. Var maturinn þar mjög góður og töluverður grísk-tyrkneskur bragur á honum, s.s. kebab, pita brauð og hummus.

7. júní 2008:
Við lögðum af stað í jeppunum fimm um kl. 08.30 frá hótelinu til Ta’iz. Við ókum suður í gegnum Sana’a. Sunnan við borgina var greinilega svæði þar sem vatnsmelónur voru ræktaðar. Á dálitlum kafla voru slíkir jarðávextir til sölu við veginn í miklu magni. Þetta mun vera mjög nærri þeim stað þar sem Imam Yahya var veitt fyrirsát og hann myrtur árið 1948. Á þessu svæði er m.a. þorpið Wa’lan. Sunnar hækkar vegurinn upp í dálítið skarð og lækkar svo mjög niður á sléttu, norður af borginni Ma’bar. Þarna, og áfram suður sléttuna, allt fram hjá borginni Dhamar, er mjög fallegt landbúnaðarhérað. Hér er m.a. ræktað hveiti, kartöflur, maís o.fl. Þegar landið verður hrjóstrugra í fjöllunum suðvestan við borgina Yarim, rækta menn mikið qat. Þarna var töluvert af dráttarvélum við akuryrkju, líkt og í Wadi Hadhramawt. Reyndar voru bændur einnig að nota asna og jafnvel kameldýr til að plægja. Þarna á flatlendinu er hins vegar hægt að koma dráttarvélum við. Á hjöllum í fjalllendi Jemens er auðvitað nær útilokað að nota dráttarvélar.

Við stoppuðum svo sem ekkert í Dhamar eða Yarim. Í Dhamar voru greinilega allmiklar byggingaframkvæmdir í gangi. Meðal annars var verið að byggja nýjan háskóla rétt sunnan við Dhamar. Einnig er Rannsóknastofnun Landbúnaðarins í Jemen skammt frá Dhamar.

Suðvestan við borgina Yarim hækkar vegurinn til Ta’iz fram á brún dalanna í suðvesturhluta Jemen. Þar er síðan ekið á löngum köflum eftir vegi sem er sprengdur inn í bratta fjallshlíð. Er þarna víða snarbratt fram af veginum og feikna djúpt niður í dalbotnana. Fjallaskarðið þar sem hæst er farið milli Yarim og Ibb mun vera um 3.000 m yfir sjó. Þarna voru allir farvegir vatnslausir, en gróðurinn jókst eftir því sem suðvestar kom og nær Ibb. Þarna voru hjallar um allar hlíðar, í ótrúlega miklum bratta sums staðar. Lífsskilyrði þessara fjallabænda hljóta að vera mjög erfið. Þessar bröttu hlíðar og hjallabúskapur minnir mjög á næsta umhverfi Manakha, í fjöllunum vestur frá Sana’a.

Upp úr hádeginu komum við til borgarinnar Ibb. Það vakti athygli okkar þegar við nálguðumst borgina að ljósastaurarnir voru málaðir í mismunandi litum, eftir svæðum. Auk þess voru stórar ljósmyndir af Ali Abdullah Saleh, forseta Jemen, á mörgum ljósastauranna, líkt og svo víða annars staðar í Jemen, bæði innan dyra og utan. Í Ibb fórum við upp á fjallstind í miðri borginni, Jabal Rabi, og borðuðum þar ágætan hádegisverð á samnefndum veitingastað. Borgin Ibb er mjög þrifaleg og greinilegt er að verulegt hreinsunarátak hefur verið gert þar. Þannig voru götur og gangstéttir mjög þrifalegar í Ibb og einnig í borgum eins og Ta’iz og Dhamar. Mörg litlu þorpin á milli þessara stærri borga voru hins vegar skelfilega skítug. Þar var víða fullt af fjúkandi rusli út um allt. Þetta vandamál með ruslið átti ekki síður við um hraðahindranir á vegum úti, þar sem farandsalar reyndu að selja hluti eins og kartöflur og qat. Í kringum þessa farandsala var víða mjög sóðalegt.

Undir kvöld komum við til borgarinnar Ta’iz. Þar komumst við lengst til suðurs í Jemen, hér um bil á 13° og 30’ N. Borgin situr í djúpum dal og byggðin teygir sig upp um allar hlíðar beggja megin dalsins, upp á efstu tinda. Norðvestan við dalinn situr glæsihótelið Sofitel Ta’iz uppi á tindi. Suðaustan megin dalsins er hótel á Saber fjalli (Jabal Saber Hotel). Við komum okkur fyrir á hótelinu Taj Shamsan, rétt utan við múrinn sem umlykur gömlu borgina. Var þetta ágætt hótel og borðuðum við þar kvöldverð uppi á 5. hæð. Fyrir matinn fórum við í göngu- og verslunarferð inn í gömlu borgina. Þar er stór markaður, Suq ash-Shannini, sem minnti mig mjög á saltmarkaðinn í Sana’a. Þarna keypti ég m.a. jambiyya með belti og einn pakka af döðlum. Svo fór ég að leita að jemensku hunangi. Eftir töluverða leit á markaðnum dró einn afgreiðslumaðurinn upp fjögurra lítra brúsa, sem var ekki hreinlegur! Úr brúsanum hellti hann 400 g af hunangi í drykkjarvatnsflösku sem hann tæmdi fyrst fram fyrir verslunina. Þegar afgreiðslumaðurinn byrjaði að hella hunanginu í vatnsflöskuna, komu fyrst dökkir kögglar. Mér leist ekki alveg á það en afgreiðslumaðurinn fullvissaði mig um að þetta væri í fínasta lagi. Fyrir þessi 400 g af hunangi í lausri vigt borgaði ég 1.000 jemeni rial eða hér um bil 400 íslenskar krónur.

Eftir kvöldmatinn sagði Muhammed leiðsögumaður okkur frá Jemen, ekki síst frá Ta’iz svæðinu, en hann er einmitt ættaður þaðan. Svo kvaddi Muhammed en ég bað þá JK um að mega segja svolítið frá Imam-ríkinu í Jemen. Sagði ég síðan frá konungunum tveimur, Imam Yahya og syni hans, Imam Ahmed. Eftir að Imam Yahya var myrtur árið 1948, tók Imam Ahmed við. Gagnstætt föður sínum, sem sat í Sana’a, þá bjó Imam Ahmed í Ta’iz, frá 1948 – 1962. Studdist ég við frásagnir Tim Mackintosh-Smith (Yemen – Travels in Dictionary Land) og breska ræðismannsins sem sat í Ta’iz 1960 en ræðismaðurinn hefur skrifað mjög læsilega grein um Imam Ahmed á heimasíðu the British – Yemeni Society.

8. júní 2008:
Eftir að hafa borðað morgunverð og tekið saman föggur okkar ókum við áleiðis upp á Saber fjall suðaustan við Ta’iz. Mikið mistur var í lofti. Reyndar höfðu verið þrumur og eldingar kvöldið áður. Þó hafði lítið rignt um nóttina. Við fórum ekki alla leið upp á fjallið, heldur stoppuðum og fengum okkur te á útiveitingahúsi í fjallshlíðinni. Áður en við fórum í tedrykkjuna, skoðuðum við al-Ashrafiyyah moskuna í Ta’iz. Sú moska mun vera sú eina í Jemen sem non-múslimar fá að stíga fæti sínum inn í. Reyndar fengum við einungis að stíga rétt inn fyrir dyrnar í salnum þar sem beðist er fyrir. Enn fremur máttu einungis fjögur okkar stíga þar inn fyrir í senn! Moskan er gömul og innan við fordyrið eru grafir allmargra einstaklinga.

Eftir tedrykkjuna uppi í hlíðum Jabal Saber fórum við í Ta’iz Museum, sem var höll Imam Ahmeds. Við fengum einungis að koma þar inn á jarðhæðina. Okkur var sagt að verið væri að laga til á efri hæðunum. Þarna var mikið af ljósmyndum, s.s. af Imam Ahmed og af syni hans, Al Badr. Að sjálfsögðu var engin ljósmynd af Imam Yahya þarna því að hann leyfði, að sögn, engum að mynda sig. Þess í stað var stórt málverk af Imam Yahya þarna uppi á vegg. Þá voru þarna margar myndir af ýmsum hátt settum Jemenum sem Imam Ahmed hafði látið slátra!

Í hliðarherbergi úr frá þessum myndasal var mjög athyglisvert safn af ilmvötnum, rakspíra, nudd-olíum o.fl. frá tíma Imam Ahmed. Sérstaklega þótti mér athyglisverð löng röð af flöskum, hver um sig ca. 400 – 500 ml, með franskri nudd-olíu. Á flöskunum stóð að þessi nudd-olía væri ætluð til nota í heitum löndum. Þá voru þarna, auk annars, tvær hvítar flöskur af „Old Spice“ rakspíra, nákvæmlega eins og þeim sem Ari bróðir minn var að nota um 1965.

Eftir þetta ókum við áleiðis til Sana’a. Við stoppuðum á útskoti í fjöllunum norðan við Ibb og fengum okkur „picknick“ sem Muhammed og bílstjórarnir höfðu keypt. Svo héldum við inn á sléttuna suðvestan Yarim. Þar keypti bílstjórinn okkar, sem okkur fannst svo líkur Ahmedinajad Íransforseta, kartöflur, líklega ein 20 kg. Sagði hann mér að hann hefði greitt 100 j.r. fyrir kílóið eða ca. ISK 40. Skömmu síðar keypti hann dálítinn poka af qat og gaf 1.000 j.r. fyrir hann. Eftir það tuggði hann qat samfleytt til Sana’a. Hann hlóð þó aldrei qat í stóran gúl innan í kinninni vi. megin eins og afar margir karlmenn í Sana’a og víðar í Jemen gera eftir hádegið, að því er virðist dag hvern.

Síðustu 50 kílómetrana af þessum 250 frá Ta’iz til Sana’a leið mér ekki vel. Ég fann að ég var að fá niðurgang og var með verki um neðanverðan kviðinn af og til. Mér tókst þó að halda í mér þar til við komum á hótelið í Sana’a en erfitt og slæmt var það. Ég var þó sem betur fer ekkert lasinn og hafði ágæta matarlyst um kvöldið – eins og reyndar í allri ferðinni um Jemen og Jórdaníu. Kvöldið sem við komum frá Ta’iz fékk ég mér glas af Heinecken bjór með kvöldmatnum. Var það fyrsti bjórinn sem ég fékk í ferðinni og bragðaðist hann afar vel! Við fórum svo tímanlega í háttinn, um kl. 22 – 22.30 eins og venjulega.

9. júní 2008:
Mér leið bærilega morguninn eftir ferðina frá Ta’iz til Sana’a. Þó hafði ég enn vott af niðurgangi. Um kl. 10 fórum við frá hótelinu upp á Þjóðminjasafnið í Jemen sem er reyndar aðeins ca. 500 m frá hótelinu og við sömu götuna. Muhammed leiðsögumaður fór með okkur um safnið en JK var fyrir utan með handtöskur hópsins því að slíkt má enginn taka með sér inn á safnið. Muhammer útskýrði m.a. að þessi bygging sem nú hýsir Þjóðminjasafnið, var helsta höll Imam Yahya á þegar hann bjó í Sana’a. Við vorum á safninu í ca. 1 klst. Ég hafði skoðað safnið nokkrum dögum áður og mátti þá taka myndir hér og þar, en nú var það bannað.

Um kl. 11.15 fór ég og skoðaði Herminjasafnið sem er stutt frá Þjóðminjasafninu, við Tahreer torg. Þar kostaði 200 j.r. inn og var ég greinilega eini vestræni maðurinn á safninu. Þarna inni var margt hermanna sem gættu safnsins. Allir voru mjög vinsamlegir, enda kastaði ég óspart kveðju á karlmennina á arabísku. Þarna var töluvert af konum. Allar voru þær með blæju, svo að rétt sá í augun á þeim. Ekki þorði ég að bjóða þeim góðan daginn, fremur en annars staðar þar sem ég kom í Jemen.

Á Herminjasafninu var mikið af vopnum, einkum frá síðustu 150 árunum, eða ca. frá 1850 og til okkar tíma. Meðal annars var þarna mikið af vopnum sem Tyrkir höfðu notað í Jemen, fram til 1918.

Á Herminjasafninu var mikil áhersla lögð á sögu byltingartilraunarinnar 1948 og á sögu byltingarinnar 1962. Sláandi þótti mér hve illa var þarna talað um Imam Ahmed. Honum var lýst sem versta harðstjóra. Reyndar voru upplýsingarnar á safninu að langmestu leyti á arabísku en víða voru þó kaflar á ensku. Þá var talað svolítið um uppreisnina gegn Bretum 1967 en það var þó ekki áberandi. Athyglisvert var að sjá þarna bresk vegabréf eða vegabréfsáritanir frá Aden-svæðinu.

Fljótlega eftir að ég kom inn á safnið, rakst ég á þrjá Jemena sem voru mjög vinsamlegir. Einn þeirra var í herbúningi. Annar hinna sagðist vera að læra ensku og bað mig að tala ensku við sig. Enskan hans var mjög takmörkuð, en hann, ásamt hinum Jemenunum tveimur, fylgdu mér um hálft safnið og útskýrðu hlutina eftir bestu getu. Þessi Jemeni sem vildi læra ensku, sagði að hann vildi flytja frá Jemen, helst til Bretlands eða Bandaríkjanna. Hann spurði mig m.a. hvað ég hefði skoðað í Jemen. Ég nefndi m.a. Ta’iz og sagði honum m.a. að þar hefði ég komið inn í mosku. Þá varð Jemeninn alvarlegur og spurði af hverju ég hefði viljað fara inn í mosku. Hann hafði jú spurt mig um trúmál og ég sagðist vera kristinn. Ég sagði honum sem var að ég vildi fræðast sem mest um menningu Arabaheimsins – og Islam væri jú mjög mikilvægur þáttur í því.

Frá Herminjasafninu rölti ég heim á hótel og hvíldi mig um stund. Síðan rölti ég niður að Bab al-Yemen og fór á salt-markaðinn. Þar keypti ég pakka af döðlum og 250 g af jemensku hunangi, sem var vigtað þar í krukku – sem var mjög þrifaleg – ólíkt því sem var í Ta’iz!

Ég rölti svo til baka upp á hótel en keypti mér dós af jógúrt á leiðinni. Uppi á hóteli borðaði ég svo slatta af ávöxtum og einnig jógúrtið. Ég setti slatta af hunanginu frá Ta’iz út í jógúrtið en við höfðum lært í ferðinni að hunang og jógúrt fer vel saman. Því sem eftir var af hunanginu frá Ta’iz henti ég, enda var vatnsflaskan sem hunangið var í alls ekki á vetur setjandi. Þá leist mér ekki heldur vel á dökku flyksurnar í þessu hunangi sem ég hafði keypt í Ta’iz.

Um kvöldið borðuðum við á Taj Sheba hótelinu og fórum að sofa um kl. 21 því að við skyldum vakin aftur kl. 00.15 til að leggja af stað áleiðis til Jórdaníu.

10. júní 2008:
Við vöknuðum kl. 00.15 og fórum niður í afgreiðslu á hótelinu og fengum okkur kaffi og smákökur. Kl. 01 ókum við svo af stað út á flugvöll. Gekk það allt vel og kvöddum við Muhammed leiðsögumanninn okkar þar. Ég lét hann að skilnaði hafa það sem ég átti eftir í jemenskum seðlum, andvirði etv. ISK 3.000 eða 4.000.

Fyrst hafði verið tilkynnt að við færum í loftið kl. 04.20 með Royal Jordanian Airlines frá Sana’a en við fórum reyndar í loftið ca. 30 mínútum fyrr. Mér skildist að þetta stafaði af því að allir farþegarnir hefðu verið komnir út í flugstöð vel fyrir tilsettan tíma – og þá var bara farið!

Við lentum í Amman í Jórdaníu eftir tæplega 3ja klst. flug. Veðrið á leiðini var mjög gott og nær engin ókyrrð í lofti. Var fallegt að sjá eldrauða dögunina í austri, yfir arabísku eyðimörkinni, svo sem miðja vegu milli Sana’a og Amman. Á flugvellinum í Amman varð bið í 30 mínútur eða svo. Við vorum á undan áætlun og starfsmaður jórdönsku ferðaskrifstofunnar sem hafði meðferðis vegabréfsáritanir fyrir allan hópinn var ekki mættur út á flugvöll. Eftir að JK var búin að hringja í aðalforstjóra ferðaskrifstofunnar birtist þó ungur fulltrúi með pappírana okkar og þar með var okkur hleypt inn í Jórdaníu. Ekkert var leitað í töskunum okkar þarna, a.m.k. ekki í minni tösku.

Frá Queen Alia flugvellinum sunnan Amman fórum við beint út á eyðimerkurveginn eða „the Desert Highway“ sem er ekki beint hraðbraut, heldur það sem Bretar mundu kalla „dual carriageway“. Þessi vegur liggur í gegnum endilanga Jórdaníu í stefnu frá Damaskus í Sýrlandi suður til Aqaba og áfram til Saudi-Arabíu og Egyptalands.

Við stoppuðum einu sinni á leiðinni og fengum okkur te í minjagripaverslun. Hér var strax augljóst hve Jórdanía er að mörgu leyti frábrugðin Jemen. Þannig flauta bílstjórar í Jórdaníu mjög sjaldan hver á annan og allt er mikið hreinlegra en í Jemen. Þá eru númeraplötur á bílum í Jórdaníu nær undantekningarlaust einungis með latneskum tölustöfum. Í Jemen var algengast að númeraplöturnar væru bæði með arabískum og latneskum tölustöfum. Einnig virtist jórdanski bílaflotinn almennt miklu nýlegri en sá jemenski og bílar í Jórdaníu eru almennt mun betur þvegnir og bónaðir en bílar í Jemen.

Á leiðinni suður eyðimörkina sáum við fosfatnámur á tveimur stöðum. Jórdanski leiðsögumaðurinn sem var frá Wadi Musa hjá Petra og talaði fremur lélega ensku, útskýrði að fosfatið væri flutt úr þessum yfirborðsnámum með sérstakri járnbraut til Aqaba. Frá Aqaba er fosfatið síðan flutt út um víða veröld með skipum. Tyrkir létu á sínum tíma leggja þessa járnbraut en hún er nú nær eingöngu notuð til vöruflutninga.

Svolítið var af sauðfjárbúskap í eyðimörkinni meðfram „the Desert Highway“ og sums staðar sáum við tjöld Beduina. Voru þessi tjöld allstór, með hús-lagi og gjarnan bílar eða asnar eða úlfaldar í grenndinni, auk sauðfjár. Reyndar sáum við seinna í Amman að sums staðar voru lóðir inni í miðri borginni með einu Beduina tjaldi en stærðar hús á öllum lóðunum í kring. Rútubílstjórinn okkar í Jórdaníu, þrekinn maður og mjög viðfelldinn, sagði okkur að hann væri fæddur í Beduina tjaldi og kominn af Beduinum.

Nokkru norðan við Petra ókum við út af eyðimerkurveginum til vesturs og komum til Litlu-Petru, nokkrum kílómetrum norðan við Wadi Musa og Petra. Þar gengum við inn í gegnum skoru í klettunum og voru þar opin svæði, hvert inn af öðru, vestur í fjöllin. Þarna var nýbúið að byggja stóreflis pall í klettagjánni. Var okkur sagt að fyrir dyrum stæði ráðstefna Nóbelsverðlaunahafa og skyldi ráðstefnan sett á þessum palli í Litlu-Petru. Abdullah, konungur Jórdaníu, mun hafa átt að setja ráðstefnuna. Má í því sambandi nefna að út um allt í Jórdaníu, inni sem úti, eru myndir af Abdullah konungi. Oft er mynd af gamla Hussein Jórdaníukonungi við hliðina á mynd Abdullah konungs. Eru þessar myndir nærri jafn áberandi og myndirnar af Ali Abdullah Saleh forseta Jemens þar í landi.

Eftir að hafa skoðað Litlu-Petru var ekið til Wadi Musa. Hér hallar landinu til vesturs í átt að sigdældinni miklu sem nær frá Genesaret vatni suður um Dauðahafið og Aqaba flóa til vatnanna miklu í Austur-Afríku. Borgin Wadi Musa mun kennd við Ain Musa, lindina sem kennd er við Móse spámann. Sú lind er efst (austast) í borginni, við veginn frá Petra, í gegnum gamla bæinn í Wadi Musa og til Amman og Aqaba. Hér á Móse að hafa slegið með staf sínum í stein þegar Ísraelsmenn voru að deyja úr þorsta í eyðimörkinni. Þá spratt þar fram lind sem enn í dag rennur þarna fram, silfurtær. Reyndar er sama sagan sögð um lind sem er mun norðar í Jórdaníu, nærri Nebo fjalli.

Þegar við komum til Wadi Musa ókum við beint á Petra Palace hótelið, nærri inngangshliðinu í Petra. Eftir að hafa fengið okkur hvíld þar, fórum ég, Elísabet Gunnarsdóttir og Kolbrún Vigfúsdóttir í gönguferð upp í Ain Musa. Þetta reyndist vera um fjögurra kílómetra spotti, upp í gegnum miðbæinn í Wadi Musa. Allir sem við hittum og spurðum til vegar, ráðlögðu okkur að taka leigubíl upp eftir. Enginn virtist skilja því við værum að ganga þetta. Þessi leið, austur í gegnum Wadi Musa, er mikið á fótinn. Ef til vill er hækkunin 200 – 300 m. Loksins náðum við upp að lindinni sem vellur fram, silfurtær, undan steinum inni í húsi með þremur hvelfingum. Þetta mun vera helgur staður fyrir Gyðinga, kristna menn og múslima. Mér skildist að þess vegna væru hvelfingarnar á húsinu þrjár! Þ arna var auðvitað minjagripaverslun sem gamal og hrumur Arabi annaðist.

Eftir að hafa skoðað okkur um við lindina, röltum við niður á bóginn, sömu leið til baka. Lindin fylgdi veginum til að byrja með. Þar sem rakans frá lindinni naut við, var afar fallegur gróður. Fljótlega þraut þó lækinn alveg og eftir það voru bara skraufþurrir farvegir niður að innganginum í Petra, allt niður í móti og til vesturs.

Eftir að hafa gengið dálitla stund niður á við, tókum við leigubíl niður brekkurnar og niður á Petra Palace hótelið. Tók þessi ferð okkar ca. 2 - 3 klst. Um kvöldið borðuðum við á veitingastað hótelsins. Þar stutt frá, innan hótelsins, var bar sem minnti dálítið á enskan pub. Þar var m.a. uppi á vegg stórt skilti undir gleri. Á skiltinu voru taldar upp, á ensku, 15 ástæður þess að bjór væri betri en konur! Þetta skilti fór mjög fyrir brjóstið á JK og fleiri konum í hópnum. JK sagði að hún hefði farið fram á það, mánuði áður, að skiltið yrði fjarlægt. Ég sá mig því tilneyddan að fara og segja við barþjóninn á minni bestu arabísku að mér þætti skiltið alveg frábært! Tók hann því vel – en JK tók þessari athugasemd minni ekki alveg jafn vel!

Petra Palace hótelið er snyrtilegur staður. Meðal annars er þar allstór sundlaug á bak við hótelið. Einnig var greinilegt að þarna þurftu menn ekki að pukrast neitt til að fá áfengi, gagnstætt því sem var í Jemen. Þá var á hótelinu allmargt af erlendu ferðafólki sem aftur var mjög ólíkt því sem við höfðum séð í Jemen.

11. júní 2008:
Við vöknuðum snemma og fórum af stað inn í Petra um kl. 08.30. Nokkrir tóku hestvagn niður í gegnum gljúfrið eða siq, inn að „Fjárhirslunni“ eða „the Treasury“. Á leiðinni niður gljúfrið var fróðlegt að sjá gömlu hellulagninguna sem Rómverjar gerðu í gljúfrið. Reyndar var hellulagningin víða á kafi í möl. Ástæð þess er sú að eftir að Petra fór í niðurníðslu, ca. eftir 600 e. Krist, var hætt að halda stíflugarðinum við innganginn í gljúfrið í lagi. Þegar stíflugarðurinn bilaði, rann vatn úr Wadi Musa inn í Petra í gegnum gljúfrið (siq) og kaffærði allt lauslegt og eyðilagði hlaðnar byggingar á svæðinu, inni í borginni Petra. Nú er búið að endurbyggja varnargarðinn svo að vatnsflóð frá Wadi Musa fara ekki í gegnum gljúfrið (the siq), heldur vestur á bóginn norðar, í gegnum göng sem endur fyrir löngu voru grafin þar í gegnum sandsteinsklettana til að skyndileg flóð komi ekki í gljúfrið.

Eftir að hafa gengið gegnum þröngt gljúfrið, ca. 1,2 km, birtist Fjárhirslan skyndilega á dálitlu opnu svæði í gljúfrinu. Fjárhirslan er höggvin inn í sandsteinsklettana sem mynda veggi Petra og er afar fallegt og heillegt mannvirki. Almennt er talið að Fjárhirslan sé fallegasta mannvirkið á öllu Petra svæðinu. Fjárhirslan mun hafa verið einhvers konar hof eða konunglegt grafhýsi á tímum Nabatea. Er talið að Fjárhirslan hafi verið höggvin í klettana á 1. öld fyrir Krist.

Frá Fjárhirslunni gengum við áfram niður gljúfrið og inn á meira opið svæði. Þar er stórt leikhús í grískum stíl, höggvið inn í klettavegginn. Þetta leikhús mun hafa rúmað 8.500 manns í sæti. Leikhúsið er að öllu leyti höggvið inn í klettana sem eru hér, eins og alls staðar annars staðar á Petra-svæðinu, úr mjúkum lagskiptum sandsteini þar sem alls konar litbrigði af brúnu og dökk-brúnrauðu skiptast á. Þetta mun vera stærsta leikhús sinnar tegundar í heiminum sem er að öllu leyti höggvið í stein og alls ekki hlaðið. Allt um kring á þessu svæði í Petra eru hellar, stærri og smærri, sem voru ýmist notaðir til íbúðar eða sem grafhýsi.

Áfram héldum við, niður á stærsta opna svæðið í Petra. Þar eru enn leifar af hlöðnu breiðstræti með steinsúlum beggja vegna. Við vesturendann á þessu breiðstræti er hlið og handan við það eru rústir af hlaðinni byggingu, „Qasr al-Bint“, eða „Höll dóttur Faraósins“. Rétt vestan við Qasr al-Bint er veitingahús og þar borðuðum við hádegisverð. Upp úr því var lagt af stað til baka. Reiknaðist mér til að leiðin frá þessum veitingastað upp á hótel væri í mesta lagi 3 – 4 km og ekki mjög mikið á fótinn. Mér fannst gangan til baka mun léttari en gangan kvöldið áður upp í Ain Musa.

Óhætt er að segja að af því sem við sáum í þessari ferð til Jemen og Jórdaníu er Petra eitt það allra stórfenglegasta. Þessi gömlu mannvirki í Petra eru svo mikilfengleg að það er erfitt að lýsa þeim með orðum. Ljósmyndir komast eitthvað nær því að skýra hve tignarlegar þessar gömlu rústir og allt umhverfi þeirra er.

Er við komum upp á hótel aftur, um kl. 14.15, var rútan frá deginum áður komin að sækja okkur. Varð ég afar feginn að sjá að bílstjórinn okkar hafði fundið farsímann minn í sætinu mínu. Ég saknaði farsímans rétt eftir að við komum inn á hótelið daginn áður. Hulstur það sem síminn var í í buxnavasa mínum, hafði opnast og farsíminn runnið út. Mig grunaði að síminn væri í sæti mínu í rútunni en gat ekki verið viss. Nú varð ég afar feginn að fá símann aftur.

Um kl. 15 yfirgáfum við Wadi Musa og ókum upp úr bænum, framhjá Ain Musa en ekki var stoppað þar. Svo var haldið norður á bóginn, í átt til Marriott hótelsins á norðausturströnd Dauðahafsins. Til að byrja með ókum við svonefndan „Konungsveg“ („Kings Way“) og sáum þá um skeið niður í skógi vaxið giljasvæði vestan við okkur sem kallast „Dana Nature Reserve“. Þar liggja gilin, skógi og gróðri vaxin, niður til vesturs á láglendið í sigdældinni miklu, Wadi Araba, suður frá Dauðahafinu. Þarna vorum við uppi á hásléttu, um 1.500 m yfir sjó. Fljótlega beygðum við til vesturs frá Konungsveginum, nærri bænum Tafileh, og stefndum norðvestur af fjöllunum niður í sigdalinn Wadi Araba, nærri 400 m undir sjávarmáli. Lækkunin þarna niður var því hátt í 2.000 metrar. Leiðin var glæfraleg með köflum en bílstjórinn ók mjög gætilega. Reynar var þessi vegur hvergi nærri eins glæfralegur, að mér fannst og vegirnir í kringum Manakha og norðan við Ibb í Jemen.

Niðri á flatanum í Wadi Araba sunnan við Dauðahafið var býsna gróðursælt. Þarna voru heilu ekrurnar af bananapálmum og einnig töluvert af döðlupálmum. Auk þess voru þarna ávaxtatré og einhvers konar kornakrar. Við komum niður í dalinn rétt sunnan við Wadi al-Hasa og ókum norður með Dauðahafinu að austan. Vegurinn er þar víða sprengdur inn í hlíðina. Á einum stað var stoppað. Þar er drangur beint fyrir ofan (austan) veginn. Menn segja að þetta sé kona Lots sem frá er sagt í Gamla Testamentinu. Hér á hún að hafa breyst í saltstólpa því að hún leit aftur á flóttanum frá Sódóma og Gómorra. Á þessum stað voru mjög sláandi saltútfellingar á steinum og klettum við vatnsborð Dauðahafsins.

Við ókum síðan áfram norður með austurströnd Dauðahafsins. Þarna fengu ýmsir tilkynningu í farsímana sína um að nú væri komið inn á þjónustusvæði ísraelska símans. Frá þessu svæði var líka stutt vestur yfir Dauðahafið, inn í Ísrael. Hér um bil miðja vegu norður með Dauðahafinu kemur Wadi al-Mujib austan úr fjöllunum niður í Dauðahafið. Þar var svolítil lækjarsytra í gilinu við veginn. Var það annar af samtals tveimur lækjum sem ég sá í Jemen og Jórdaníu ef frá er talið vatnsflóðið í Sana’a eftir rigninguna miklu þar. Hinn lækurinn var Ain Musa í Wadi Musa hjá Petra.

Við náðum á Marriott hótelið nyrst við austurströnd Dauðahafsins rétt fyrir kl. 19 um kvöldið. Var þar meiri íburður en ég hafði nokkurn tíma séð á hóteli áður, bæði í móttöku, á herbergi og úti við sundlaugarnar sem voru a.m.k. þrjár, á hjöllum niður frá hótelinu að strönd Dauðahafsins.

Við fengum ágætan kvöldverð á hótelinu og fengum okkur jórdanskt hvítvín með matnum. Það bragðaðist ágætlega. Við áttum svo ágæta nótt þarna á hótelinu.

12. júní 2008:
Við vöknuðum flest allsnemma og mörg okkar prófuðu að busla í Dauðahafinu fyrir morgunmatinn. Ég fór í Dauðahafið strax að loknum morgunverði – og var þetta í eina skiptið sem ég fór í sundskýluna í ferðinni. Dauðahafið er um 30-34% salt. Þegar maður setur hendina ofan í vatnið og sullar svolítið, koma hringir eða gárur niður í vatnið líkt og t.d. þegar 50% glúkósu er blandað í hreint vatn. Svo flýtur maður næstum því eins og korkur í þessum saltpækli. Ef maður stendur upp á endann, er höfuð, háls, herðar og handlimir að mestu upp úr eða etv. einn fimmti af líkamanum. Mætti því giska á að eðlisþyngd vatnsins í Dauðahafinu gæti verið um 1,2 g/cm3. Ég var með svolitla skurfu milli 4. og 5. táa á vinstra fæti. Þar sveið strax í þegar ég fór niður í Dauðahafið. Þegar ég reyndi að synda bringusund, komu fæturnir strax upp úr svo að útilokað var að synda með því móti. Ég gætti þess að dýfa höfðinu ekki niður í Dauðahafið. Okkur hafði verið ráðlagt að fá ekki þennan saltpækil í augun. Sem betur fór var sturta rétt ofan við flæðarmálið og þar var hægt að skola saltpækilinn af sér.

Á Marriott hótelinu var fjölmargt fólk og mjög alþjóðlegt andrúmsloft. Garðurinn Dauðahafs megin við hótelið var afar fallegur. Þar uxu m.a. stórir döðlupálmar en ekki voru döðluklasarnir eins vel þroskaðir og í Wadi Daw’an í Jemen.

Eftir hádegi ókum við brott frá Marriott hótelinu og héldum norðaustur á bóginn, upp úr Jórdan-dalnum. Við Dauðahafið var mjög heitt en uppi á Nebo fjalli, norðaustur frá Dauðahafinu, var töluvert svalara. Í Gamla Testamentinu segir að Móse hafi horft frá þessu fjalli vestur yfir Jórdan-dalinn og til fyrirheitna landsins. Auk þess er sagt að Móse sé grafinn á Nebo fjalli. Hér eru minnismerki um þennan atburð, en einnig hafði Jóhannes Páll páfi II komið hér árið 2000 og minnismerki verið reist um það. Uppi á Nebo fjalli var svartþrastarkarl að kyrja óðalssönginn sinn. Sá ég fuglinn vel í sjónauka og var lagstúfurinn afar kunnuglegur.

Í grennd við Nebo fjall komum við inn á vinnustofu þar sem fatlaðir einstaklingar voru að gera mósaík myndir úr marglitum steinflísum. Ég keypti þar litla mósaík-mynd af „lífsins tré“ á dúk.

Eftir að hafa heimsótt þessa vinnustofu og verslað meira og minna, ókum við til Amman. Við fórum beint á Jerúsalem International hótelið. Var þetta ágætt hótel og mun íburðarminna en Marriott hótelið. Hótelið var þó eina fimm km frá miðborg Amman svo að ógerlegt var að labba niður í miðborg. Okkur var sagt að leigubíll niður í miðborg kostaði þrjá jórdanska dínara (ISK 360). Ég og flest hinna vorum því um kyrrt á hótelinu fram að kvöldmat.

Á hótelinu var ágætur bar sem minnti mjög á breskan pub. Þar fékk ég mér hálfan líter af lager og fylgdi með úrval af steiktum og söltuðum hnetum. Svo fórum við í kvöldmat um kl. 20. Þegar við vorum að setjast til borðs, var Stefanía Khalifeh, ræðismaður Íslands í Jórdaníu, mætt. Borðaði hún með okkur um kvöldið.

Þegar við vorum að panta okkur drykk með kvöldmatnum, barst okkur til eyrna mikið sekkjapípuspil úr anddyri hótelsins. Þessu fylgdi trumbusláttur og söngur. Við Íslendingarnir fórum flest fram í anddyri til að sjá hverju þetta sætti. Þar var þá mikil mannþröng. Reyndist þetta vera jórdanskt brúðkaup. Horfðum við og hlustuðum á þetta góða stund. Öll brúðkaupshersingin fór síðan upp á næstu hæð, bæði karlar og konur, að brúðhjónunum meðtöldum.

Undir borðum fluttu nokkrir ræður og þökkuðu JK fyrir sig. Ég var einn þeirra sem þakkaði henni. Við afhentum JK m.a. kort, undirritað af okkur öllum 17, þar sem við skuldbindum okkur til að leggja upphæð (kr. 5.000 eða kr. 10.000, ekki nefnt á kortinu) inn á reikning vegna skólabyggingarinnar fyrir YERO í Sana’a.

13. júní 2008:
Við vöknuðum á 8. tímanum á Jerúsalem International hótelinu. Við héldum síðan út á Queen Alia flugvöll sunnan við Amman og biðum þar um stund. Þar keypti ég m.a. geisladisk með arabískum þjóðlögum og döðlur frá Jórdaníu með súkkulaðihúð fyrir hjúkrunarfólk á Slysadeild FSA.

Við fórum í loftið með breiðþotu frá Royal Jordanian Airlines um kl. 12.30 að staðartíma. Við flugum vest-norðvestur yfir Dauðahafið og Ísrael og sáum m.a. flugvöllinn í Tel Aviv. Einnig sáum við móta fyrir Miðjarðarhafsströnd Egyptalands, þar sem óshólmar Nílar og Miðjarðarhafið mætast. Nokkuð löngu seinna sáum við sæbrattar eyjar við strönd Grikklands. Þá tók við svæði með verulegri ókyrrð í lofti, væntanlega yfir sunnanverðum Balkanskaga. Eftir um 4 klst. flug sáum við stóra á með skipaumferð, væntanlega Rín í Þýskalandi.

Við lentum á Heathrow flugvelli við London e. um 5 klst. flug. Hér fóru fimm úr hópnum í burtu. Hrafn Túliníus og Helga Brynjólfsdóttir fóru áleiðis til Frakklands. Þrjú önnur yfirgáfu einnig hópinn. Við hin, 13 talsins, biðum fram á kvöld á Terminal 1 á Heathrow en fórum svo til Keflavíkur með þotu Flugleiða. Það flug var einstaklega notalegt og engin ókyrrð í lofti alla leiðina. Við lentum í Keflavík kl. 22.55 að íslenskum tíma. Ég fór svo með flugrútunni til Reykjavíkur og gisti að venju á Flókagötu 1. Morguninn eftir, 14. júní, fór ég svo norður með áætlunarflugi og var kominn heim til Akureyrar rétt um kl. 12 á hádegi.

Eftirmáli:
Þessi ferð til Jemen og Jórdaníu var ótrúlega skemmtileg og fræðandi. Þótt við dveldum einungis í þrjá daga í Jórdaníu, var samt sláandi hve löndin eru ólík. Jemenar og Jórdanir tala arabísku og eru múslimatrúar. Mikið lengra nær samlíkingin ekki. Jórdanía virðist miklum mun þróaðra land og vestrænna en Jemen. Fátækt í Jemen er mjög áberandi. Þannig eru konur, stundum með börn í eftirdragi, víða að betla á götum úti í Jemen. Slíkt sáum við ekki í Jórdaníu. Muhammed, jemenski leiðsögumaðurinn okkar, sagði mér að olíuframleiðsla Jemena væri einungis 1-2% af framleiðslu Saudi-Araba. Reyndar mun þessi tala vera nær 14%, skv. því sem ég las mér til á internetinu eftir heimkomuna. Hvað um það, hér kemur þá mun minna til skiptanna á hvert mannsbarn í Jemen heldur en í Saudi-Arabíu, því að Saudi-Arabar eru ekki mikið fleiri en Jemenar.

Bílar í Jemen eru venjulega lítt eða ekki þvegnir og ekki bónaðir. Er það mjög ólíkt Jórdaníu þar sem bílaflotinn almennt virkar nýlegur og vel hirtur.

Ekki kunni ég vel við að hafa vopnaða lögreglu út um allt í Jemen og endalausar varðstöðvar á vegum og götum úti. Þessir lögreglumenn voru reyndar hinir vinsamlegustu, en þetta gefur til kynna að ástandið í Jemen sé allt annað en tryggt. Þá virðist líka ljóst að vestrænir ferðamenn þora almennt ekki að fara til Jemen, nema þá í mjög takmörkuðum mæli. Er það auðvitað mjög ólíkt því sem gildir um Jórdaníu.

Almennt virtust mér Jemenar vera hið vingjarnlegasta fólk. Ég passaði mig að ávarpa þá alltaf á arabísku. Slíkt kunnu Jemenar – og Jórdanir líka – vel að meta. Voru bæði Jemenar og Jórdanir nær undantekningarlaust mjög vinsamlegir við mig. Í eitt skipti, þegar ég reyndi að ganga heim neðan úr gömlu borg í Sana’a og upp á Sheraton hótelið hreyttu unglingsdrengir í mig ónotum – á ensku. Það var sumpart mér sjálfum að kenna því að ég hafði ekki hirt um að ávarpa þá á arabísku.

Mér reyndist ómetanlegt að hafa undirbúið ferðina vel. Ég hafði keypt leiðsögubækur um Jemen og Jórdaníu fyrir ferðina og lesið þær svo gott sem spjaldanna á milli áður en haldið var af stað. Einnig hafði ég keypt kort af Jemen og Jórdaníu og það hjálpaði líka nokkuð. Engir aðrir í hópnum, hvorki íslensku þátttakendurnir, JK né arabísku fararstjórarnir, höfðu slík kort. Þá var mjög gagnlegt að hafa lært svolítið í arabísku fyrir ferðina. Arabarnir voru margir mjög undrandi á því að ég gat talað svolítið á þeirra máli og spurðu gjarnan hvar ég hefði lært þetta. Ekki minnkaði undrunin þegar ég sagði þeim að þetta væri úr einni bók: „Teach Yourself Arabic“. Ég hefði bara viljað læra meira í arabísku fyrir ferðina. Það hefði verið gaman.

Rétt er að nefna hlut JK í skipulagningu þessarar ferðar. Hlutur hennar er ómetanlegur. Vissulega vinnur hún í samvinnu við innlendar ferðaskrifstofur í Jemen og Jórdaníu. Hennar starf er þó geysimikið og vel af hendi leyst. Hún er líka að flestu leyti mjög vel að sér um Mið-Austurlönd. Á stöku stað gætti ónákvæmni hjá henni í söguskýringum en það var mjög minni háttar.

Um qat-neyslu Jemena mætti skrifa langt mál. Býsna stór hluti karlmanna í Jemen virðist tyggja qat daglega eftir hádegið, ekki síst í Sana’a og nágrenni. Láta þeir qat-laufin gjarnan sitja í stórum gúl úti í kinn, venjulega vinstra megin. Oft eru Jemenarnir við vinnu sína jafnframt því sem þeir tyggja qat. Þannig tuggðu flestir Land-Cruiser bílstjórarnir okkar í Sana’a qat eftir hádegið og svo lengi fram á kvöld sem ferðin entist. Vegna blæjunnar er nær ógerlegt að segja hvort eða hve margar konur á götum úti í Sana’a tyggja qat.

Ljóst er að Jemenar eyða miklum fjármunum í qat. Þannig kostaði dagskammturinn af qat handa bílstjóranum okkar í Sana’a 1.000 jemeni rial sem er jafngildi 10 kg af kartöflum. Jemenarnir virðast þó vinnufærir, þrátt fyrir qat-neysluna eftir hádegið. Auðvitað sáum við ekki hve margir sitja uppi í mafrajj og tyggja qat þar. Slíkt er hulið augum venjulegra ferðamanna.

Að öllu samanlögðu var þetta stórkostleg ferð og ég naut því nær hverrar mínútu í ferðinni í ríkum mæli. Er óhætt að mæla með svona ferð við allt duglegt fólk sem hefur áhuga á að kynna sér framandi menningu og ókunnan heimshluta.

Ingvar Teitsson